Kvæði úr óuppsettum söngleik

Þessi kvæði voru ort haustið 2003 við bráðskemmtilegan söngleik eftir Björn Sigurjónsson. Ekkert útlit er fyrir að hann verði settur upp á næstunni.

Monday, April 24, 2006

Sálmur handa guðspjallamanninum

Þótt ríki í heiminum harðræði og stríð
skal hjarta þitt friðhelgi njóta,
í kærleikans garði þú hvílist um hríð
og hversdagsins þjáningar standa til bóta.
Veröldin sýnir þér vorgrænan skóg
svo vitund þín unun þar finni
og góðvildin, blíðan og gleðinnar fró
gróa í hugarró þinni.

Í garðinum vaxa þau vináttublóm
sem von þína á hunangi næra
og aldreigi þurfa að óttast þann dóm
sem árstíðasviptingar jörðinni færa.
Þín blygðun er ástinni óþurftargrjót
sem uppræti heiðarlegt sinni,
svo breiði hún krónuna birtunni mót
og blómstri í einlægni þinni.

Með auðmýkt skal frjóvga þau fegurðarkorn
sem falla í jarðveg þíns hjarta.
Í dyggðinni vitrast þér vísdómur forn
og val þitt mun samhygð og örlæti skarta.
Þó læðist að vafi, um lostann er spurt
ég læt mér það nægja að sinni,
að nefna þá staðreynd að nautnanna jurt
nærist á ástríðu þinni.

Wednesday, October 06, 2004

Leikfimilagið

Finnst þér ýkt og ógeðslegt að vera fituhlass
og hlunkast um með hnakkaspikið lafandi oná rass
með siginn barm og undirhakan hristist er þú hlærð
og engar búðir selja föt í fílastærð.
Ef sætur strákur lítur á þig strax hann sér
að rassinn hvílir kekkjóttur á hælum þér.
Þeir líkja þér við hráan lifrarpylsukepp,
feita gyltu, flóðhest eða myglusvepp.

Finnst þér lítið kúl að vera karlmaður með brjóst
og ömurlegat að vita að það sé lýðnum ljóst
að langtum betra úthald hefur sjötug amma þín
sem myndi fyrir skvapið á þér skammast sín.
Með upphandleggjaspírur líkt og Óli Skans
og kokteilsósan rennur um þinn æðakrans.
Þú veist að stelpur ræða um þig sem rúmmetrann
og fellingarnar hylja á þér félagann.

Trúarlagið

Sértrúarsöfnuðurinn flytur þennan söng við innvígslu nýrra félaga


ch
Tak mig til þín,
tákn þíns heilaga anda mér sýn.
Þinn kjötlegur sonur í kærleika
kemur til mín.


Leið oss að ljósi þíns dreyra,
lambhrúta sanna.
Frá jörðu þú jarm vort munt heyra,
já, hósíanna.

Kaleik þíns eilífa anda
erum vér þyrst í.
Gef oss af gnótt þinna handa,
gloría Kristí.

Sál vora af saurugum dansi
Satans fulltrúa,
hreins þú með himneskum fansi,
heyr, hallelúja.

Leys oss frá drykkju og dræsum,
djöflum oss fría.
Lát oss ei enda í ræsum,
ave María.

Líkna þú aumum ódámi,
eilífa gef von.
Frelsa oss frá kynvillu og klámi,
kyrie eleison.

Gjör oss af andanum ölvuð
en ei brennivíni.
Drykkja og dóp veri bölvuð,
deus ex machine.


Stríðnilagið

Leikfimikeppni er framundan og keppinautarnir veitast að sætustelpunni sem ætlar að vinna.


Fríkin: Hún er bæði fim og fær,
fjórða sæti eflaust nær.
Skortir trú á sjálfri sér
sigrar aldrei, því er ver

Vonleysið er undirrót vandans
Marlín: -farðu til fjandans.


Fríkin: Fellur rétt að fyrirmynd
fullkomlega á það blind
að ef þú ekki ert þú sjálf
ánægjan er minna en hálf.

Helga: Helst ég vildi hella hana fulla
Marlín: -hættu að bulla.


Fríkin: Brosið engu bjargar nú,
barbídúkkur eins og þú,
úr plasti fjöldaframleiddar
fylla búðarhillurnar.

Helga: Ljúft mér þætti að láta henni hitna
Marlín: -fyrr skal ég fitna.

Sótthreinsunarlagið

Eddi á að sjá til þess að fulltrúi heilbrigðiseftirlitsins finni enga sýkla. Hann finnur lausnina á internetinu.


Eddi er með upplýsingatæknina á hreinu
og er nú búinn að finna ráð við vandamáli einu
hann komst að því að ótrúlegar upphæðir þið getið
sparað, ef þið eruð klár og notið internetið.

Með maurasýru, kvikasilfri og klór
kælilegi og slatta af stýflueyði,
vítissóda, bónleysi og bór,
bremsuvökva og smurolíuseyði,
ég garantera að sýklafárið sjatni,
og bæti í til öryggis,
brennsluspritti, frostlegi og flösku af sódavatni.


Trukkalessulagið

Mig langar ekki að anga eins og
lítið, veikt og ljósbleikt sumarblóm.
Með hárið sítt og fésið frítt
og silkiglans á sanseruðum skóm.
Þær mega leika píkubleikar tíkur fyrir mér.
Svo sætar að það veldur verk í kverkum.
En það er ekki þannig sem ég er.

Ég fíla þetta þvottabretti,
vöðvamassa, styrk og stæltan rass.
Því ég er svona kjarnakona,
stælakvendi, strákafæla og skass.
Ég örga grimmt og sigra þær sem megra og fegra sig.
Ég þóknast engum erkitýpuklerkum
sem vilja að normalformi fella mig.

Mér líður best í leðurvesti,
þekki mig með hlekki og hundaól.
Ég fíla brútal blætisstíl
og keðjudót, og keyri mótorhjól.
Mér finnst svo gott og flott að vera hot og hrottaleg.
Því mér er ætlað merki þeirra sterku,
mér fer svo vel að vera bara ég.




Iðrunarlagið

Vinkonurnar hafa sært hvor aðra og eru miður sín vegna þess en hvorug þorir að rétta fram sáttarhönd




Orð hafa mátt sem eflir og nærir
andvari þeirra er ljúfur og hlýr.
Hvetur til dáða, huggar og hrærir
harmi og raun til bjartsýni snýr.

Orð hafa mátt sem meiðir og særir,
vindur þess ofsa eyðir og tærir
Eldur í hverri orðræðu býr.
Og aldrei er hægt að taka
töluð orð
til baka.



Hallgerður: Vináttu okkar brotið er blað
því burt frá mér hef ég hrakið
þá einu sem hjartað þráir
-og það
er þyngra en tárum taki.
Nú veit ég hver játning á stund sína og stað
og tek ekki séns á að segja þér hvað
minn söknuður djúpt mig þjáir.


Marlín: Orðum ég hef í ógáti beitt
og einasta vininn svikið
um aðgát í návist sálar
-og meitt
Enginn veit hversu mikið
ég gæfi ef gæti ég einhverju breytt
en þori ekki að segja "mér þykir það leitt"
og þögnin er hvöss sem nálar.



Lostalagið

Ég elska hana ekki eins og systur
og óvíst hversu vel hún tæki því.
Og þessvegna er sem þokugrámi og mistur
þarfir mínar sveipi í dularský.
Ég þrái að halda í höndina hennar smáu,
horfa djúpt í augun bláu.
Þögnin virðist stundum þyngri en blý.

---
Ástríðunnar poppkorn eru óæt, köld og stíf
lokuð inní skel sem líkist gullnu tári
láttu hita örbylgjunnar brjóta upp þitt líf
og kjarninn springur hvítur út því sári
----

Mig langar hennar hörund til að snerta
og hárið síða greiða og flétta það
Með vörum mínum eyru hennar erta
og orðum mínum finna réttan stað.
Mig langar hennar hlátur til að fanga,
heita leggja kinn við vanga.
Ástarljóðum hvísla henni að.

Fegurð hennar fingurgómum strjúka
og finna hvernig hjartað bærist ótt.
Horfa á hana verða vota og mjúka
og vefja hana örmum heila nótt.
Bíta laust í brjóstið hennar hvíta,
blíðu minnar fjötra slíta,
horfa á andlit hennar verða rjótt.

Mig langar til að leggja hana á bakið
og lófum strjúka blítt um hennar kvið.
Hennar dýpstu frygð ef fæ ég vakið
þá fullnægjunnar opnast sáluhlið.
Af hungurkrafti ástarinnar ungu
æst ég þrái að leika tungu
um lærin stinn og stefna upp á við.


Hugsjónalagið

Ég á mér sýn
um sælla líf og betri heim.
Þar sem börnin vaxa úr grasi
í sannri gleði og sálarró.
Það er köllun mín
að kenna þeim.

Á sólarstöðu sérhvern dag þau hefja
og synda að því loknu, góða stund,
þau aldrei meir við tölvuleiki tefja
en trúa á lýsi og eftirmiðdagsblund.

Við handahlaup þau hálfan daginn una
og hoppa yfir leðurklæddan hnall.
Þau ganga á slá og teygja arma
og taka lítið stökk
á trampólíni og enda í frjálsum spuna.

Ég á mér sýn
um betri heim að samastað.
Þar sem jafnvægi er á öllu,
þar sem brosir jang við jin.
Það er köllun mín
að kenna það.

Í beinni röð þau ganga og bilin jafna
með bakið rétt og horfa fram á við.
Þau skrumi, dópi og skyndifæðu hafna
og skilja mína speki um innri frið.

Ástarlagið

Nýútskrifaður lögregluþjónn syngur til elskunnar sinnar

Eina nótt í október
ástin greip um hjarta mér.
Ótrúleg og alveg greit
eftir strætisvagni,
beið hún undir bláu skýli
og brosti til mín undirleit.

co
Vekur í hug mér löngun, losta
Lífsgleði, kæti og ástarþorsta
Að vita að muni verða mín
Marlín, Marlín

Inn í vagninn er hún steig
og ætlaði heim á Laugarteig,
elti ég líkt og fiskur agn
og ef það gerðist núna,
óðar myndi ég aftur stíga
upp í sama strætisvagn.

Ljósálfi hún líktist þá,
lítil, grönn og beinasmá.
Þeg'r´úr strætó steig hún út
stjarfur fylgdi ég henni.
Brátt við tengdumst böndum eins og
bensíntankur dælustút.

Við pössum saman, pældí í því
sem pastasósa og spaghetty.
Ég er bæði klár og kúl
og keyri eðal-Mösdu,
heilbrigð sál í hraustum skrokk
og hún er fokking bjútífúl.

Raðhús vil ég byggja brátt,
börnin fæðast smátt og smátt.
Engan líða skal hún skort
skýli undir mínu.
Því ég heiti að hún fær aldrei
höfnun á sitt Vísa-kort.

Víkingur ég verða mun
og vernda hana af innlifun.
Sumarhús í sænskum stíl
senn ég reisi henni.
Og aldrei skal hún aftur bíða
eftir strætó, ég á bíl.

Lýtaaðgerðalagið

Ég ætla mér að finna lýtalækni
sem lagar helstu gallana á mér
hann af mér síða augnpokana sker
og loðna leggi fixar hann með leysertækni.

Hann smækkar útstæð eyru mín
og nefið langt og ljótt
og rífur úr mér rifbein
svo að mittið verði mjótt.
Hann spengir á mér tennurnar og spik úr lærum sýgur
hann klippir, sker og flakar þar ístran af mér flýgur.


Hann brjóst mitt sælu og silikoni fyllir.
Hann setur á mig Brasilíuvax
og stækkar síðan varir mínar strax.
Er eldist ég, mitt bótox-enni alla villir.

Hann skrapar burt minn skúffukjaft
og mjaðmabeinið breitt
og galdralyf hans geta
öllum gelgjubólum eytt.
Í grindarbotninn krukkar svo mér gefist þrengri píka
(en neyðarlegt ef gæinn léti stækka vininn líka) > innskot vinkonunnar

Ég ætla góðan lýtalækni að finna
sem lagar helstu gallana á mér
þá verð ég loksins önnur en ég er
því engu hef ég enn að tapa en allt að vinna.

Hvatningarlagið

Helga er að æfa sig fyrir leikfimikeppni og vinkonur hennar hvetja hana.

Ása: Teygja, púla taka á
takmarkinu ef viltu ná.
Efla bæði þrek og þol
þjálfa leggi skut og bol.

Helga: Gengur hægt, hvað á ég að gera?
Ása: -nú gef ég þér stera.

Ása: Stelpu sterka höfum við.
Stöndum báðar þér við hlið.
Ef þú þolir ekki tap
efla skal þitt keppnisskap

Helga: Ef ég tapa, eflaust ég dæi.
Signý: -ert´ekki í lagi?

Helga: Hvernig verður keppnin sú?
Kannski alveg úr úr kú?
Ása: Öll hún fer á einhvern veg
Signý: -aldrei verri en ömurleg.

Helga: Hvað vantar svo ég vinni'essa keppni
Signý: -helvítis heppni

Ása: Ef þú þreytist þessu á
þokkalega mundu þá:
árangur er afstæður
Signý: -aldrei verri en afleitur.

Helga: Sæll mun verða sigursins losti
Signý: -hvað ætli´ann kosti?



Sælgætislagið

Þetta lag syngur skutlan í stykkinu þegar hún er að fríka út á heilsusamlegu líferni.


Hvað er svona æðislegt við endorfín?
að engjast um í krampakenndri mæði,
hlaupa, stökkva og svitna eins og svín,
ég súkkulaði miklu fremur þæði.

Pheny la la nin
Phe nyle thy la min
það er betra en vatn og vítamín.

Karamella er betri en dóp og brennivín
og brjóstsykurinn örvar heilans flæði.
Á súkkulaði æpir sála mín
því sykurkikk ég fremur vímu þæði.

Pheny la la nin
Phe nyle thy la min
það er betra en hass og heróín.

Mig langar ekki í skemmtun, hlátur, skaup og grín
og skammvinn nautn er klístruð svita og sæði
og oft er feikuð fullnægingin mín
ég fremur ekta súkkulaði þæði.

Pheny la la nin
Phe nyle thy la min
er miklu betra en ástarbrögðin þín.

Harmóníulagið

Þetta kvæði lýsir lífsafstöðu leikfimigúrúsins


Ég boða yður innri frið
svo andið djúpt –já oní kvið.
Finnið hvernig friðsemdin
flæðir hrein um innyflin.
Teygðu þínum öngum á
og allri streitu vísa frá.
Hefst nú losun hugarkúks
Í harmóníu anda og búks.

---
Létt er verk að losa þig við spikið.
En hamingju og hugarró
hreppirðu ef þú borgar nógu mikið.
---

Ætlir þú að lifa létt,
lærðu þá að borða rétt:
Grænkáli í sig gúlla má
og gluða tófúi ofaná.
Baunamauk er best með því
það bætir lífsins harmóní
en mæjónes á veika vörn
það veldur ólgu í sál og görn.


Staðfast hjarta styrkjum við
Með stæltum vöðva og mjúkum lið
Átök spara aldrei skalt
því andinn græðir þúsundfalt.
Er þú lóðum lyftir hátt
losar þú um hugans mátt,
vér minnust bljúgir Mullers dans
með mjaðmasveiflu kærleikans.


Af hugareitri og sálarsótt
mun sjóðheitt blóðið hreinsast fljótt,
losum þannig líkamann
við lostann gegnum pungsvitann.
Á eftir skal svo anda í hring
og enda hjartans hreingerning
er sálarinnar samastað
sendum við í steypibað.


Tuesday, October 05, 2004

Vonbrigðalagið

Lúserinn er svekktur því yfirmaður hans sveik loforð um að láta hann vera kynni í sjónvarpsþætti.


Á hverjum degi þess ég minnast þarf
þvílík heppni sé að hafa starf.
Ég áður stóð í ólöglegu harki
og af því að ég gisti Litla Hraun
þér sjálfsagt finnst að svíkja mig um laun.
Ég sætti mig við það að vissu marki

--
Ég hef tekið heimsins ranglæti með hægð
Því ég hélt ég fengi í staðinn
þessar fimmtán stuttu mínútur af frægð.
--

Ég taldi víst að treysta mætti þér
að tækifærið loksins gæfist mér,
að standa á sviði, sveipaður í ljóma
í svörtum jakka og tala í míkrófón.
Að uppfylla ekki þessa einu bón
Er augljóst merki um hentistefnu tóma.

Ég átti að vera kynnir þetta kvöld
í kastljósinu og hafa þessi völd
sem öðrum virðast enganveginn nægja.
Og athygli frá sætum stelpum fá,
mér gripi enginn frammí fyrir þá
ég fengi allan salinn til að hlæja.

Ég vildi gera mömmu stolta af mér
og margítrekrað loforð tók af þér.
Og voðalega verður pabbi svekktur.
Ég var sko búinn að segja honum frá því
hann fengi að sjá mig sjónvarpinu í
og segja öllum "strákurinn er þekktur".